Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Keppni í krónusökki

Búast má við því að krónan falli snarpt þegar hún verður sett á flot, segir forsætisráðherrann.  Það er ekki mikið flot í krónu sem sekkur eins og steinn þegar henni er sleppt lausri. Gengið mun botnfalla og lán landsmanna hækka samsvarandi.  Gengistrygging húsnæðislána er staðreynd. Verðbólgan étur börnin sín.

Það er nauðsyn að afnema gengistryggingu innlendra lána. Til að svo verði þarf að endurskoða verðtryggingarfótinn. Hann á ekki að miðast við kaupverð á innfluttum neysluvörum heldur þarf að setja fram nýjar og raunhæfar forsendur. Á meðan á að afnema verðtryggingu húsnæðislána.

Verðbólguskotið sem fylgir sökki flotkrónunnar,  má  ekki verða til þess að fólk missi húsnæði eða trú á framtíðina. það er beinlínis hættulegt að horfa á lánin hækka og hækka, þrátt fyrir að standa alltaf í skilum á hærri og hærri greiðslum meðan eigið fé gufar upp. Séríslensku okurvextir þeirra eru til verndar einni kynslóð á kostnað þeirra sem komu á undan og þeirra sem koma á eftir.

Af hverju skyldu lífeyrissjóðir telja nauðsynlegt að verðtryggja með þessum hætti? það er hvergi gert í löndunum sem við berum okkur samanvið. Skyldi það vera af því að lífeyrissjóðum hefur verið stýrt að sjálfskipuðu liði úr bönkum og atvinnulífi, ekki launþegum sem þó eiga aurinn. Hver man ekki baráttu eigenda almenna lífeyrissjóðins fyrir þvi að fá mann í stjórn?

Auðvitað á fólk að mega leysa valkvæman séreignalífeyrir til að grinka á húsnæðisskuldum. Þeir sem eiga hann. Þeir forkólfar lífeyrissjóða og verkalýðsyfirstéttar eru ekki að hugsa um hagsmuni sinna umbjóðenda þegar þeir hafna slíkum tillögum. Hvað þeir eru að hugsa veit ég ekki  - það er nóg komið af slíkum hugsunarhætti. 

 


Verðtrygging er hægfara eignaupptaka

Verðtrygging er hægfara eignaupptaka

Verðtrygging er séríslenskir aukavextir sem eiga að tryggja að lán haldi verðmæti sínu þannig að ef keypt var fokhelt hús árið 2000 á 20 ára láni eigi lánsupphæðin þegar lánstíma lýkur að duga fyrir sambærilegu fokheldu húsi, að viðbættum vöxtum.

Rökin fyrir verðtryggingunni hafa verið þau að þannig mildist sveiflur í hagkerfinu til hagsbóta fyrir lántakendur. Í verðbólgu megi alltaf lengja lánstímann. Flestir lántakendur eru nú þegar með lán til 40 ára. Þeir hafa því ekki orðið varir við þessi þægindi.  Þvert á móti grípur örvænting flesta þá sem skulda íbúða- og lífeyrissjóðslán þegar horft er til framtíðar. Lánin hækkuðu að meðaltali um 16%  vegna verðbóta á síðustu 12 mánuðum og nýjasta verðbólguspá er 20% vegna gengisfalls krónunnar. Þetta þýðir að höfuðstóll láns sem var 10 milljónir í október 2007 verður orðið tæpar 14 milljónir í október 2009 með verðbótum. Á sama tíma mun verðgildi fasteignarinnar hafa lækkað umtalsvert skv. spá Seðlabanka. Höfuðstólinn hækkar, greiðslubyrði eykst og eigið fé hverfur. Þetta er einfaldlega eignaupptaka í skjóli löggjafans.

 Óréttmæt gengisverðtrygging

Á undanförnum árum hefur verið þensluverðbólga. Verðtryggð lán hafa hækkað samfara hækkandi launum, íbúða- og vöruverði. Í slíku umhverfi má vel rökstyðja verðtryggingu lána. 

Nú er samdráttur á Íslandi. Það er engin neysluverðbólga. Fjöldi manna hefur misst vinnuna. Einkaneysla hefur dregist saman um rúm 7% og vöruskiptajöfnuður við útlönd er hagstæður. Fasteignir hafa hríðlækkað í verði og ný spá Seðlabanka gerir ráð fyrir að íbúðaverð falli um allt að 46% á næstu árum. Þess vegna ættu verðtryggð lán nú að lækka ef rökin fyrir verðtryggingu eiga að halda.

Þær verðhækkanir sem nú hvolfast yfir íslendinga stafa ekki af neyslu heldur gengisfalli handónýtrar krónu og eiga ekkert erindi inn í verðtrygginguna. Ef svo heldur fram sem horfir mun þessi óréttmæta gengisverðtrygging éta upp íbúðir landsmanna.

 Verðtryggingin og lífeyrissjóðirnir

Ef verðtryggingin er lögð niður skaðar það lífeyrissjóðina því þeir geta ekki varið lífeyrisréttindi gegn verðbólgu ef eignir eru óverðtryggðar, þ.e. íbúðalán og skuldabréf vegna íbúðalánasjóðs. En hvert er gagnið í verðtryggingu ef hún étur upp eignir sjóðsfélaga og þeir hætta að geta borgað af lánunum þannig að sjóðirnir neyðist til að taka fjölda íbúða upp í skuldir? Tap lífeyrissjóðanna verður geigvænlegt því spáð er gríðarlegu falli á íbúðaverði á næstu árum. Þá má gera ráð fyrir að greiðslur í lífeyrissjóði lækki með vaxandi atvinnuleysi og lækkandi launum. Það er engum til hagsbóta að fólk missi heimili sín vegna óstjórnar. Eignist ríki og lífeyrissjóðir stóran hluta fasteigna vegna vanskila er voðinn vís. Hvað eiga sjóðirnir að gera við íbúðirnar á óvirkum fasteignamarkaði? Bíða eftir að auðmenn kaupi þær svo fyrir fé sem nú er falið í útlöndum?Það getur ekki verið vilji eigenda lífeyrissjóðanna, fólksins í landinu. Ekki hugnast mér betur tilboðið um að sjóðirnir eignist hluta í íbúðum sem fólk leigi af þeim en geti svo keypt aftur síðar, á verðtryggðu láni. Það er eignaupptaka.

Hagsmunum eigenda flestra lífeyrissjóða er betur borgið ef verðtrygging er afnumin, hið minnsta tímabundið meðan þetta ófremdarástand gengur yfir.

 Tímabundið afnám verðtryggingar strax

Það var veisla á Íslandi sem fjölmennir hópar landsmanna voru ekki boðnir í. Nú lítur út fyrir að veislulokin verði á kostnað þeirra sem ekki  voru boðnir.

Verðtrygging lána lífeyrissjóða og íbúðalánasjóðs til húsnæðis á að afnema tímabundið í sex mánuði. Þegar sól hækkar á lofti ber að skoða hvort verðtrygging lána skuli halda sér eður ei.


Höfundur

Ásta
Ásta
náttúruunnandi og útivistarkona. Með áhuga á flestu sem finnst undir sólinni. Sér sig nú knúna til að blogga um stjórnmál og þjóðfélagsástandið
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband